Afstaða Rússa er áfram afdráttarlaus: Úkræna verði áhrifasvæði þeirra

Það er kjarni máls.

Eini möguleikinn fyrir Úkrænu annar en uppgjöf er að hún hún hafi nægan styrk með til að knýja Rússa í vopnahlé og jafnframt afl til að halda aftur af þeim í framhaldinu. Forsendan er auðvitað að nægur hernaðarlegur og fjárhagslegur stuðningur berist frá Vesturlöndum. 

Meðfylgjandi viðtal bandarísku stjónvarpsstöðvarinnar ABC frá 15. desember við varautanríkisráðherra Rússlands sýnir svo ekki verður um villst að markmið Rússa í Úkrænu hafa í engu breyst og eru eðli þeirra samkvæmt óumsemjanleg í grundvallaratriðum af rússneskri hálfu. 

Áhrifasvæði leyfir ekki trúverðugt erlent friðargæslulið eða utanaðkomandi öryggistryggingar. Einungis Úkrænumenn geta tryggt öryggi eftir vopnahlé. Allt bendir til að það geti þeir, einkum frammistaða Úkrænuhers í stríðinu og þeir miklu veikleikar rússneska hersins sem það hefur leitt í ljós. 

Þegar Rússneskir ráðamenn segja líkt og kemur fram í viðtalinu að þeir telji að samningar séu í augsýn, þá er það væntanlega sagt í trausti þess að Trump stjórnin beiti Úkrænu þeim þrýstingi sem þurfi til.

Hér er viðtalið við rússneska vararáðherrann: 

https://abcnews.go.com/International/video/russia-ukraine-verge-deal-end-war-deputy-foreign-128420597

Loftslagsstefna Íslands er í ógöngum sem fyrr

Hér á vefsíðunni hefur loftslagsstefna Íslands verið ítrekað gagnrýnd fyrir að endurspegla ekki þá sérstöðu landsins að um 80 prósent af orkunni sem notuð er koma frá endurnýjanlegum orkugjöfum.

Þvert á móti og þrátt fyrir þessa augljósu sérstöðu er stefna Íslands og hefur verið árum saman í aðalatriðum eins og í öðrum Evrópuríkjum og aðferðin í grunninn hin sama, það er að minnka losun gróðurhúsalofttegunda og kaupa svonefndar loftslagsheimildir ef upp á vantar að yfirlýst markmið náist. Svo mikið vantar upp á hér á landi að umhverfisráðherra hefur sagt að kaupa þurfi heimildir fyrir allt að 11 milljarða miðað við markmið um samdrátt í losun til ársins 2035.

Ástæður þess að markmið Íslands nást ekki lúta að því meðal annars og ekki síst að hlutfall endurnýjanlegrar orku er svo hátt sem fyrr sagði – eða um 80 prósent af orkubúskapnum. Hjá Evrópuríkjum er hlutfallið að meðaltali milli 15 og 20 prósent.

Hið háa hlutfall endurnýjanlegrar orku hér á á landi veldur því að það er dýrt að halda áfram að minnka losun – dýrara en annarsstaðar. Það er þekkt og auðskilið að eftir því sem hlutfall endurnýjanlegrar orku verður hærra og eftir því sem ríki ná lengra samkvæmt því í að draga úr losun, þeim mun dýrara verður að halda áfram að minnka losun.

Það er auðveldast að tína ávextina neðst á trénu eins og sagt er. Þegar ofar dregur á trénu verður það vitanlega erfiðara og fyrirhafnarmeira.

Loftslagsstefna Íslands hvílir ekki á framangreindum lykilatriðum – öðru nær – og er því í þeim ógöngum sem við blasa og verið hefur um margra ára skeið.

Leið út úr öngstrætinu væri að byggja stefnuna á algerri og óumdeildri sérstöðu landsins í orkumálum.

Það þýddi að Íslendingar biðu með frekari samdrátt í losun þar til önnur ríki hefðu að minnsta kosti nálgast Ísland hvað hlutfall endurnýjanlegrar orku varðar.

Á þessa leið hefur verið bent á hér á vefsíðunni með rökum og skýrum forsendum; þeim sem getið er hér að ofan og útskýrðar hafa verið frekar í öðrum og ítarlegum greinum á síðunni.

Hinn 12. nóvember síðastliðinn spurði alþingismaðurinn Sigríður Á. Andersen umhverfisráðherra á alþingi hvort ekki væri tímabært að hætta við yfirlýst markmið Íslands um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. ”Því eins og allir vita” sagði þingmaðurinn, “er Ísland heimsmeistari … þegar kemur að loftslagsmálum og við eigum svo sannarlega ekki að vera með markmið um samdrátt eins og önnur Evrópuríki.”

“Nei, það kemur ekki til greina” svaraði ráðherrann, “ að Ísland dragi sig út úr alþjóðlegu loftslagssamstarfi. Það mun aldrei gerast á minni vakt og á vakt þessarar ríkisstjórnar….Við setjum okkur sjálfstæð markmið sem eru í samræmi við aðstæður okkar hér. Við njótum góðs af þeim árangri sem við höfum náð þegar kemur að nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa. Við horfum til sérstöðu okkar þegar kemur að heildarsamsetningu losunar en um leið beitum við okkur af fullum þunga fyrir því að heimsbyggðin, og þar erum við í samstarfi við önnur ríki, gangi rösklega til verka þegar kemur að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þar ætlum við að taka fullan þátt. Það kemur ekkert annað til greina.”

Stefnan er óbreytt og áfram í ógöngum: Að loftslagsstefnu Íslands verði sett “sjálfstæð markmið sem eru í samræmi við aðstæður okkar hér” – eins og umhverfisráðherra orðaði það -er í bága við að loftslagsstefnan er í grundvallaratriðum óbreytt og eins og hjá öðrum Evrópuríkjum. Hún byggir áfram á sömu nálgun og aðferðum og áður en ekki á þeirri sérstöðu Íslands að um 80 prósent af orkunotkun á landinu koma frá endurnýjanlegum orkugjöfum – svo því sé enn og aftur haldið til haga.

Og hvernig hyggst Ísland beita sér af “fullum þunga” fyrir því að “heimsbyggðin” taki sér tak í loftslagsmálum? Er risið áður óþekkt stórveldi í loftslagsmálum? Hvað þýðir þessi stefnuyfirlýsing?

Og hvernig á að ganga af Íslands hálfu “rösklega til verka þegar kemur að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda”?

Með því að kaupa losunarheimildir fyrir milljarða af því Ísland nær ekki yfirlýstum markmiðum stjórnvald um minni losun sakir þess meðal annars og ekki síst að hér á landi er hlutfall endurnýjanlegrar orku hið hæsta sem þekkist.

Sem veldur aftur því að Íslendingar eiga sem fyrr sagði örðugt með að halda lengra en þegar hefur verið gert í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Sjá nánar á vefsíðu um alþjóðamál og utanríkismál:

Hvers vegna næst ekki árangur á alþjóðavettvangi í loftslagsmálum og hvað þýðir það fyrir Ísland? 8. desember 2023.

Loftslagsstefna Íslands er í ógöngum og samræmist ekki grundvallarreglum í alþjóðasamstarfi 17. mars 2024

Umræða að kvikna um vanda loftslagsstefnu Íslands? 22.ágúst 2024

Loftslagsstefna, viðtal í hlaðvarpinu Ein pæling, 14. ágúst 2024.

Engar líkur á hefðbundnum hernaðarárásum á Danmörku – Niðurstaða leyniþjónustu danska hersins

Þetta kemur fram í mati leyniþjónustunnar (Forsvarets Efterretningstjeneste – FE) á fjölþátta ógn (hybrid trussel) gegn Danmörku útgefið 3. október síðastliðinn.

“Truslen fra regulære militære angreb mod Danmark er INGEN”stendur þar. Í ensku útgáfunni frá leyniþjónustunni segir: “The threat of conventional military attacks against Denmark is NONE”. (https://www.fe-ddis.dk/globalassets/fe/dokumenter/2025/trusselsvurderinger/-vurdering-af-den-hybride-trussel-mod-danmark.pdf)

Þessi skýra niðurstaða kemur reyndar ekki á óvart og er í grunninn í takt við mat leyniþjónustustofnana annarra ríkja undanfarin ár, þar á meðal í Finnlands, Svíþjóðar og Noregs. 

Höfundi þessarar vefsíðu þykir þó rétt að birta þetta álit dönsku leyniþjónustunnar í því skyni að árétta grundvallaratriði íslenskra varnarmála, sem oft hefur verið bent á hér á síðunni. 

Það lýtur að því að líkur á stríði milli NATO og Rússlands eru almennt taldar litlar. Mat dönsku leyniþjónustunnar undirstrikar þessa lykilforsendu. Svo lengi sem hún á við stafar ekki hernaðarógn frá Rússum að Íslandi.

Ekki er unnt að útiloka að forsendur breytist en Rússar hefðu ekki afl í NATO fyrr en hugsanlega eftir einhver ár – jafnvel mörg ár í ljósi þeirra djúpstæðu veikleika rússneska hersins sem Úkrænustríðið hefur leitt í ljós.

Í febrúar síðastliðnum gaf danska leyniþjónustan út það álit að Rússar gætu verið reiðubúnir í stórstríð (storskalakrig) á meginlandi Evrópu á um það bil fimm árum (https://www.fe-ddis.dk/globalassets/fe/dokumenter/2025/trusselsvurderinger/-20250209_opdateret_vurdering_af_truslen_fra_rusland_mod–.pdf).

En spá leyniþjónustunnar er háð ákveðnum og róttækum skilyrðum:

  1. Að Úkrænustríðið hætti. Meðan það stæði segir í spánni hefðu Rússar fangið fullt og gætu ekki jafnframt átt í stríði við eitt eða fleiri NATO ríki. Hér skal bætt við að Úkrænustríðið er talið líklegt til að halda áfram – jafnvel lengi.
  2. Að Bandaríkin stæðu ekki að baki NATO. Því má bæta við að þótt blikur séu á lofti bendir enn ekkert til að Bandaríkin yfirgefi bandalagið.
  3. Að NATO mundi ekki byggja upp herstyrk sinn á sama hraða og Rússar sinn her. Evrópuríki NATO eru byrjuð að taka sér tak í þessum efnum og hafa alla burði til þess. Þjóðarframleiðsla þeirra samanlögð er margfalt meiri en Rússlands. 

Danska leyniþjónustan leggur megináherslu á að önnur hætta en bein hernaðarleg ógn – svonefnd fjölþátta ógn – stafi frá Rússlandi að Danmörku og öðrum NATO ríkjum. Fjölþátta ógn á einkum við nethernað, hernaðarlegar ögranir – þar á meðal með drónaflugi – skemmdarverk og undirróður. Mat leyniþjónustunnar er að miklar líkur séu á skemmdarverkum gegn danska hernum og á hernaðarlegum ögrunum. 

Í mati dönsku þjónustunnar kemur meðal annars fram að Rússsar noti fjölþátta aðgerðir í viðleitni til að veikja pólitíska einingu og staðfestu NATO ríkjanna. Markmiðið sé ekki að ná skjótum ávinningi heldur skapa viðvarandi óvissuástand og grafa þannig með tímanum undan einingu bandalagsríkjanna. Jafnframt segir að líklegt sé að Rússar herði róðurinn að þessu leyti bregðist bandalagið ekki við fjölþátta aðgerðum þeirra.  (Målet for Rusland er ikke at opnå hurtige gevinster, men at skabe en vedvarende tilstand af usikkerhed, hvor NATO’s sammenhold langsomt undermineres. Det er sandsynligt, at Rusland vil blive mere villig til at skærpe de hybride angreb, hvis alliancen ikke reagerer på dem.)

Stefna Íslands í varnar- og öryggismálum

Höfundur vefsíðunnar tekur í aðalatriðum undir það sem fram kemur í skýrslu samráðshóps þingmanna um “Inntak og áherslur í varnar- og öryggismálum” og kom út 12. september síðastliðinn. Meðfylgjandi er innlegg sem hann var beðinn um í apríl vegna undirbúnings skýrslunnar. Hér birtist það með nokkrum minniháttar breytingum sem höfundur gerði ýmist í þágu skýrleika eða til áhersluauka.

———-

Albert Jónsson

11. apríl 2025.

Svar við beiðni frá samráðshópi þingmanna um innlegg vegna öryggis – og varnarstefnu fyrir Ísland (samkvæmt tölvupósti frá utanríkisráðuneyti dags. 4. apríl 2025):

Helstu áhersluatriði: 

– Megináskoranir í öryggis- og varnarmálum sem íslensk stjórnvöld þurfa að mæta lúta að borgaralegum öryggismálum. Þetta á við öryggi landamæranna, sem er mikil áskorun og þar er úrbóta þörf. Önnur borgaraleg öryggismál lúta að hafsvæðum við landið og fjarskiptastrengjum sem liggja að því neðansjávar, að netöryggi og að viðnámi gegn fjölþátta ógnum. Framangreind mál eru á forræði íslenskra stjórnvalda en jafnframt háð samstarfi við erlend ríki og stofnanir.

– Hervarnir Íslands kæmu eingöngu til sögu ef stefndi í styrjöld milli NATO og Rússlands. Slík styrjöld er sem fyrr almennt talin ólíkleg. Eftir hrakför rússneska hersins í Úkrænu mun taka jafnvel mörg ár að koma honum í það horf að geta tekist á við NATO. Það á ekki bara við búnað heldur einnig við alvarlega veikleika sem lúta að stjórnun, þjálfun og skipulagi. Á sama tíma munu NATO ríki ekki sitja aðgerðalaus heldur er ætlunin að auka framlög til hermála, jafnvel verulega í sumum tilvikum.

– Hervarnir Íslands heyra undir varnarsamstarfið við Bandaríkin sem rekja má aftur til ársins 1941 í síðari heimsstyrjöld. Í varnarsamstarfinu felst jafnframt mikilvægt framlag til hernaðarlegs öryggis á norðurslóðum og meginlandi Evrópu. 

– Ekki er ástæða til að ætla annað en að Bandaríkjaher mundi gera nauðsynlegar ráðstafanir á hættutíma til að verja Keflavíkurflugvöll vegna hernaðarlegs mikilvægis hans og til að vernda fjölmennt lið bandarískra hermanna sem þar yrði. 

– Það þarf að hafa áfram reglulegt samráð við bandarísk stjórnvöld um varnarmálin, þar á meðal hvernig aðstaða Bandaríkjahers í landinu er notuð af hans hálfu og hvernig hún nýtist best í þágu öryggishagsmuna beggja ríkjanna á hverjum tíma; sem og hvort og hvernig þurfi hugsanlega að uppfæra aðstöðuna. Umræða um þetta og varnarsamstarfið almennt á að vera opin og gagnsæ enda hvílir það á skýrum hagmunum og á mikilvægum en einföldum forsendum. Leyndar er ekki þörf nema að litlu leyti.

– Vandséð er hvaða þörfum “íslenskur her” – sem stundum kemur upp í umræðunni –  mundi sinna sem íslenskar öryggisstofnanir sinna ekki nú þegar varðandi borgaraleg öryggismál. Einnig er erfitt að greina hvaða virðisauki gæti fylgt íslenskum her fyrir hernaðarlegt öryggi ríkis sem á varnarsamstarfi við öflugasta herveldi heims. Loftvarnir Keflavíkurflugvallar eru hryggjarstykkið í hervörnunum og ekki ástæða til að ætla annað en að þeim yrði sinnt ef á þyrfti að halda með fullnægjandi hætti af hálfu Bandaríkjahers vegna þeirrar hernaðarlegu þýðingar sem landið og flugvöllurinn hafa.

– ESB eða ríki þess hafa um fyrirsjáanlega framtíð ekki getu til að tryggja hervarnir Íslands.

– Lykilhagsmunir í alþjóðlegu öryggissamstarfi Íslands lúta að því að leggja af mörkum til að viðhalda og efla einingu NATO ríkjanna til að tryggja frið og stöðugleika í Evrópu. Ísland þarf að sýna vilja í verki þessu efni. Framlög til stuðnings Úkrænu – hernaðarlega og að öðru leyti – eru því ánægjuefni.

————

Með hruni Sovétríkjanna 1991 hvarf möguleiki á því að stórveldi gæti náð ráðandi stöðu á meginlandi Evrópu og í framhaldinu ógnað þaðan öryggi á Norður-Atlantshafi og á vesturhveli Jarðar. Þetta var hætta sem stafaði frá þýska keisaradæminu í fyrri heimsstyrjöld, frá Þýskalandi nasimans í síðari heimsstyrjöld og frá Sovétríkjunum í kalda stríðinu. Þetta var jafnframt mikikilvægasti þátturinn í öryggismálum Evrópu og Norður-Atlantshafs megnið af 20. öldinni – en hann á ekki afturkvæmt. Rússland er ekki og verður ekki arftaki Sovétríkjanna, hvorki sem stórveldi né herveldi. 

Rússland telst ekki stórveldi á venjulegum mælikvörðum í því efni. Alþjóðleg almenn, pólitísk áhrif Rússa eru takmörkuð, efnahagurinn afar einhæfur og hagkerfið álíka stórt og til dæmis hagkerfi Kanada, sem hefur þó margfalt færri íbúa en Rússland. Rússland á kjarnavopn en er að öðru leyti ekki stórveldi í hernaðarlegum efnum líkt og Úkrænustríðið hefur leitt glögglega í ljós. 

Í Rússlandi er hins vegar stjórnvald sem einkennist af einræði og kemst upp með að leggja áherslu á herinn og útjöld til hermála á kostnað almennra lífskjara og framfara. Að óbrreyttu verður Rússland aftur ógn við næstu nágrannaríki þess og þar með stöðuleika í Evrópu. Til að koma í veg fyrir það þarf NATO að hafa trúverðuga fælingarstefnu. Hún var vart til staðar á árunum 2014-2022 – það er í aðdraganda innrásarinnar Úkrænu.

Eftir kalda stríðið var rússneski herinn í lamasessi vegna fjársveltis. Meðal annars hurfu flugvélar hans kafbátar og herskip af Norður Atlantshafssvæðinu. Um 2010 var byrjað að endurreisa herinn. Upp úr 2014 sáust flugvélar hans og kafbátar aftur úti á Norður-Atlantshafi en í miklu minni mæli en í kalda stríðinu enda Norðurflotinn ekki svipur hjá sjón samanborið við það sem var á Sovéttímanum. Sama átti við langdræga sprengjuflugvélaflotann en flugvélar hans sáust áður oft við Ísland. Eftir endurreisn hersins voru forgangsverkefni rússneska Norðurflotans áfram að gæta öryggis eldflaugakafbáta í Barentshafi sem geyma hryggjarstykkið í kjarnorkuherstyrknum og að verja stöðvar flotans. 

Bandaríkin og önnur NATO ríki – en einkum Bretland og Frakkland – brugðust við þróuninni á öðrujm áratugnum með því að halda flugvélum, kafbátum og herskipum úti í auknum mæli norðar en áður. Þjónustuheimsóknir bandarískra kafbáta til Íslands – en einnig til Færeyja og í mestum mæli til norður Noregs – eru angi af þessari þróun. Að þurfa ekki að halda til heimahafna vegna áhafnaskipta og til að sækja varahluti lengir úthaldstíma kafbátanna á norðurslóðum, bætir þannig nýtingu og lækkar kostnað. 

Þrátt fyrir allt sem gengið hefur á undanfarin ár vegna Úkrænu er styrjöld milli NATO og Rússlands áfram almennt talin ólíkleg. Hvað öryggi og varnir Íslands varðar mundi einungis slík styrjöld (gjarnan kölluð þriðja heimsstyrjöldin) fela í sér þannig ógn að kallaði á hervarnir á Ísland og hún mundi aðallega beinast að Keflavíkurflugvelli og einkum kalla á loftvarnir hans. Varnirnar yrðu gegn stýriflaugum og flugvélum sem bæru þær og sendu þær af stað langt fyrir norðan landið. Einnig má gera ráð fyrir að bregðast þyrfti með kafbátahernaðarflugvélum gegn kafbátum sem bera stýriflaugar.

Styrjöld milli NATO og Rússlands er nú væntanlega enn ólíklegri en áður. Því veldur afar slök frammistaða rússneska hersins í Úkrænustríðinu og gífurlegt tjón sem hann hefur orðið fyrir. Ennfremur þeir alvarlegu veikleikar Rússlandshers sem stríðið hefur leitt í ljós og eiga við landher, flugher og flota, stjórn hersins, skipulag, búnað og þjálfun. Almenn vanhæfni ríkis og hers og landlæg spilling fela einnig auðvitað í sér djúpstæða veikleika sem hafa löngum háð rússneska hernum og hergagnaframleiðslunni.

Það mun taka mörg ár að eyða þessum veikleikum, koma á nauðsynlegum endurbótum og endurreisa herinn þannig að hann yrði í stakk búinn til að geta tekist á við NATO. Það mun líða skemmri tími auðvitað þar til Rússar geta hert róðurinn gegn Úkrænu og ógnað öðrum nágrannaríkjum, það er þeim sem ekki eru í NATO.

Það segir sína sögu að rússneski herinn – það er flugher og floti, þar á meðal kafbátar – hefur svo gott sem horfið á undanförnum árum af Norður Atlantshafi. Það endurspeglar minni burði og jafnframt að forgangsverkefni Norðurflotans – varnir kjarnorkuherstyrksins og herstöðva á Kolaskaga – eru langt í norðri í heimahöfum eða nálægt þeim. 

Flugvélar Bandaríkjahers sem hafa tímabundna viðveru á Keflavíkurflugvelli eru eftirlits og njósnaflugvélar af gerðinni Boeing Poseidon P-8. Þær sinna þaðan eftirliti frá Íslandi á norðurhöfum en einnig eftirliti og njósnum á Eystrasalti úti fyrir rússneska landsvæðinu þar sem heitir Kaliningrad. Svo hefur verið undanfarin ár. Jafnframt er farið reglulega slíkar ferðir frá Keflavíkurflugvelli til Barentshafs þar sem Norðurfloti Rússa heldur sig og þar sem eru hafnir og aðrar stöðvar flotans. 

Hernaðarlegt hlutverk Íslands lýtur aðallega að því að leggja til fælingarstefnu gegn Rússlandi til að tryggja frið og öryggi á meginlandi Evrópu. Markmiðið er að reyna að sannfæra rússnesk stjórnvöld um það fyrirfram að árás á NATO yrði ekki bara svarað á meginlandinu. Það yrði einnig gert með árásum frá flugvélum, kafbátum og herskipum á norðurslóðum á Norðurflotann, stöðvar hans í norðvestur Rússlandi og eftir þörfum á skotmörk lengra inni í Rússlandi.

Aðstaða Bandaríkjahers á Íslandi eykur trúverðugleika fælingarstefnunnar.  Sýnt er fram á að í stríði yrði stutt frá Keflavíkurflugvelli við fyrrnefndar hernaðaraðgerðir gegn Norðurflotanum og Rússlandi með gagnkafbátahernaði, eldsneytisflugvélum, ratsjárþotum og jafnvel sprengjuþotum. Jafnframt yrði sýnt fram á að Keflavíkurflugvöllur yrði varinn sem er einnig til að auka trúverðugleika fælingarinnar. 

Ekki er ástæða til að ætla annað en að Bandaríkjaher mundi gera allar nauðsynlegar ráðstafanir á hættutíma til að verja Keflavíkurflugvöll vegna hernaðarlegs mikilvægis hans og einnig auðvitað til að tryggja öryggi þess fjölda flugliða og annarra hermanna sem þar hefðu aðsetur.

Sérstakt mál er að Rússar hafa sagst vera að þróa kjarnorkuknúið tundurskeyti sem bæri kjarnorkusprengju og drægi neðansjávar frá norðurslóðum til árása á austurströnd Bandaríkjanna. Vopnið, sem einnig yrði hjá Rússlandsflota á Kyrrahafi, er sagt verða tilbúið innan tíu ára. Hugsanlegt er að viðbrögð Bandaríkjahers mundu meðal annars leiða til áætlana um að reyna að granda slíkum tundurskeytum á leið þeirra suður Atlantshaf í GIUK hliðinu svonefnda milli Grænlands, Íslands, Færeyja og Bretlands. Því er ástæða til að fylgjast með þessu máli þó það sé með ólíkindum.

Norðurslóðir skipta nú strategískt meira máli en Norður-Atlantshaf, en Ísland fær ekki þá hernaðarlegu þýðingu vegna norðurslóða, sem það hafði í kalda stríðinu vegna legu þess á Norður-Atlantshafi. Ísland liggur að segja má mun sunnar en áður í herfræðilegu tilliti. 

Bandaríkjaher sækir meira en áður inn á norðurslóðir af því þar er rússneska flotann að finna og sakir þess að heimskautsísinn hörfar. 

Öryggishagsmunir Rússlands og umsvif á svæðinu eru þekkt í grundvallaratriðum og óbreytt en efnahagslegt mikilvægi norðurslóða fyrir Rússland á að líkindum eftir að aukast mikið og hagsmunir í takt við það.

Umskipti gætu orðið eftir einhverja áratugi á norðurslóðum opnist Íshafið vegna hlýnunar Jarðar. Það mundi meðal annars leiða til þess að samkeppni Kína og Bandaríkjanna – í sívaxandi mæli ráðandi þáttur alþjóðamála – næði að fullu inn á norðurslóðir og um þær til Norður Atlantshafs og Íslands. Ógn við öryggi Íslands ykist í takt við þessa þróun.

Í tengslum við erfiðleika í samskiptum Trump stjórnarinnar og NATO ríkja hefur örlað á efasemdum hér á landi um að treysta mætti því að Bandaríkin stæðu við varnarskuldbindingar gagnvart Íslandi. Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess. Reyndar má ætla má að svo lengi sem Íslendingar vilja halda í varnarsamstarfið muni þjóðaröryggishagsmunir Bandaríkjanna á norðurslóðum – ef ekki á meginlandi Evrópu – viðhalda áhuga Bandaríkjahers á aðstöðu á Íslandi. Hann á sögu sem senn fyllir 84 ár.

En gæti ESB eða ríki þess annast varnir Íslands ef Bandaríkin gengju úr skaftinu í NATO? Svo afdrifaríkt skref af hálfu Bandaríkjannaer ólíklegt en ekki útilokað eftir að Trump stjórnin kom til sögu með efasemdir um bandalagið og gagnrýni á það og gælur við höfuðandstæðingana Rússa. Óháð þessu eru miklar líkur á að Bandaríkin eigi eftir að draga verulega úr her sínum og hernaðarumsvifum í Evrópu og snúa athyglinni enn frekar en þegar er orðið að Kína og Asíu-Kyrrahafssvæðinu. En þessi atriði hefðu þó, eins og fyrr sagði, ekki áhrif á varnir Íslands svo lengi sem Íslendingar vildu halda áfram varnarsamstarfinu við Bandaríkin. 

Hvað sem öðru líður er grundvallaratriði að ESB eða ríki þess hafa ekki og munu ekki um fyrirsjáanlega framtíð hafa getu til að tryggja hernaðarlegt öryggi eyríkisins Íslands langt úti á Norður-Atlantshafi.Það sem þyrfti væru fyrst og síðast öflugar loftvarnir gegn rússneskum stýriflaugum, sem kæmu að landinu, einkum til árása á Keflavíkurflugvöll, og geta til að ráðast gegn rússneskum flugvélum langt norður af landinu áður en stýriflaugar þeirra yrðu sendar af stað. Ennfremur þyrfti hernaðargetu gegn kafbátum sem bera stýriflaugar. Loftvarnirnar mundu kalla á marga tugi orrustuþotna á Íslandi, ratsjárþotur  og eldsneytisþotur. Einungis Bandaríkjaher hefur þá hernaðargetu sem þyrfti.

Einnig þyrfti flugvélar til að flytja stöðugt til landsins varahluti og nauðsynlegan mannskap og búnað til að halda loftvarnaflugvélaflotanum í starfhæfu standi á Íslandi undir miklu álagi. Það er einnig langt í frá að ESB ríki gætu þetta.

Herir næstum allra ESB ríkjanna eru um margt veikburða eftir áratuga vanrækslu og fjársvelti. Það mun kosta mikið átak og taka að lágmarki við bestu fjárhagsleg skilyrði allmörg ár – 5 -10 ár gjarnan nefnd – að byggja upp hernaðargetuna að því marki að herirnir gætu tryggt öryggi eigin landa hvað þá annarra og fjarlægra ríkja.

Borgaraleg öryggismál: Ein lykilforsenda ríkisvalds er að tryggja landamærin og halda uppi löggæslu. Það er þannig grundvallaratriði að fullnægjandi eftirlit sé á landamærunum til að koma í veg fyrir að skipulögð glæpaöfl og hættulegir einstaklingar komist til landsins og nái að hreiðra um sig. Og ekki er unnt að útiloka að hryðjuverkahópar kunni að horfa hingað. 

Á landamærunum er úrbóta þörf.

Það er spurning hvort eyríkið Ísland eigi heima í Schengen samstarfi Evrópurikja um opin landamæri. Ein lykilforsenda Schengen samstarfsins er að þátttökuríkin eiga landamæri með öðrum Schengen ríkjum. Það á vitanlega ekki við Ísland, ekki frekar en við eyríkið Bretland sem tók ekki þátt í Schengen og var þó í ESB þegar samstarfinu var komið á fót.

Það þarf að láta reyna á hvaða möguleikar eru á því í Schengen með vísan í landfræðilega sérstöðu Íslands að herða eftirlit á landamærunum. Í því fælist að taka aftur upp almenna vegabréfaskoðun hjá þeim sem koma til Íslands frá Schengen ríkjum, taka upp myndgreiningarkerfi á landamærastöðvum og ganga eftir því að öll flugfélög afhendi farþegalista.

Það þarf vart að taka fram að auk þess að herða landamæraeftirlit þarf auðvitað að tryggja öfluga löggæslu en einnig landhelgisgæslu sem er útbúin til þess að hafa fullnægjandi eftirlit með hafsvæðum við landið.

Vond samskipti NATO ríkja við Rússa auka hættu á ógn við öryggi fjarskiptastrengja sem liggja að Íslandi neðansjávar.  Hér er auðvitað umgrundvallaraöryggisatriði að ræða fyrir samfélagið. Jafnframt ætti að vera fremur auðvelt að fylgjast með ferðum tiltölulega fárra erlendra skipa við landið í þeim tilgangi að gæta öryggis strengjanna. Nú stendur til að landhelgisgæslan fái ómannaðan kafbát til eftirlits með strengjunum og er það góð ráðstöfun.

Líkur á ógn viðnetöryggi á landinu aukast einnig vegna erfiðra samskipta við Rússland.

Loks þarf að gæta að hugsanlegum fjölþátta ógnum. Það á við mögulegar ógnir sem lúta meðal annars að óeðlilegum þrýstingi og undirróðri af hálfu erlendra ríkja. Í þessu samhengi þarf sérstaklega að horfa til harðnandi samkeppni Bandaríkjanna og Kína á heimsvísu og á norðurslóðum.

Öll þessi mál – landamæraeftirlit, öryggi sæstrengja, netöryggi og viðnám gegn fjölþátta ógnum – eru borgaraleg öryggismál eins og sagði í inngangi. Verkefni á könnu íslenskra stofnana og sem engin ástæða er til að ætla að þær ráði ekki við hafi þær þann búnað og mannskap sem til þarf.

Það er að þessum öryggismálum sem beina á auknum fjármunum eftir þörfum auk stuðnings við Úkrænu og önnur málefni eftir því sem við á og tengjast hagsmunum Íslands sem lúta að öryggi, velferð og stöðugleika í Evrópu.

Loftslagsstefna

Ég er í hlaðvarpinu Ein pæling að tala um loftslagsstefnu á Íslandi og alþjóðavettvangi. Ég tek fram í viðtalinu að hlýnun Jarðar af mannavöldum er staðreynd en bendi jafnframt á að sú leið sem fara á til að ná yfirlýstum markmiðum og vinna bug á vandanum er pólitískt ófær sakir þess hve óhemju dýr hún yrði. Svo markmiðin náist þarf umbreytingu í orkubúskap mannkynsins og að henni ber að beina kröftum á alþjóðavettvangi.

Einnig bendi ég á leið út úr vanda loftslagsstefnu Íslands sem á langt í land með að ná yfirlýstum markmiðum. Lausnin felst í því að taka upp gerbreytta stefnu byggða á þeirri sérstöðu að endurnýjanleg orka stendur undir meira en 80 prósentum af orkubúskap þjóðarinnar.

Stefna ríkisstjórnarinnar um “öryggi og varnir” er skýr og skynsamleg

Ríkisstjórnin hefur svarað kalli NATO – og Bandaríkjastjórnar – um að evrópsku bandalagsríkin og Kanada verji einu og hálfu prósenti af vergri landsframleiðslu til “öryggis- og varnartengdra” útgjalda. Það á við útgjöld vegna ýmissa innviða, netöryggi, landhelgisgæslu o.fl.

Markmiðinu á að ná á tíu árum. Svigrúm í öryggismálum virðist því töluvert.

Til viðbótar 1,5% framlagi til öryggis og varnartengdra verkefna verður þremur og hálfu prósenti landsframleiðslu varið ár hvert til hervarna. Sú skuldbinding á ekki við Ísland, sem hefur enda ekki her, en lætur í té mikilvæga aðstöðu fyrir NATO en einkum Bandaríkjaher. Bandaríkin eru skuldbundin til að verja landið í samræmi við varnarsamning Íslands og Bandaríkjanna frá 1951.

Miðað við núverandi landsframleiðslu Íslands og 1,5% af henni er um að ræða um 70 milljarða króna á ári. Ýmis öryggis og varnartengd verkefni hafa auðvitað þegar verið framkvæmd og önnur eru væntanlega í bígerð óháð samþykktum NATO.

Forsendur og markmið stefnunnar eru rakin í grein formanna ríkisstjórnarflokkanna, “Öryggi og varnir Íslands”, sem var birt 25. júní. Í undirfyrirsögn segir “Skýr skilaboð til þjóðarinnar um öryggi og varnir Íslands” og þau eru það vissulega.

Í greininni er horft til þeirrar grundvallarspurningar hver sé “skynsamleg nýting á okkar fjármagni og framlagi” til sameiginlegra varna NATO ríkja. Svarið felst í að verja fé til að efla Landhelgisgæslu Íslands, eftirlit á landamærum, netöryggi, löggæslu og aðra þætti í réttarvörslukerfinu. Ennfremur á að auka áfallaþol samfélagsins með því að byggja upp og verja innviði sem snúa að orku, fjarskiptum og samgöngum.

Málin sem ríkisstjórnin leggur áherslu á í “skilaboðum” hennar um öryggi og varnir eru því borgaraleg öryggismál, verkefni sem eru á könnu íslenskra ríkisstofnana og sem engin ástæða er til að ætla að þær ráði ekki við hafi þær þann búnað og mannskap sem til þarf. Enda segir í grein formannanna að fyrst og fremst eigi að styrkja stöðu Íslands með því að “einbeita okkur að því sem við þekkjum, kunnum og getum hér heima. Þannig tryggjum við hagsmuni Íslands.”

Það er að þessum borgaralegu öryggismálum sem beina á auknum fjármunum á næstu tíu árum en einnig á samkvæmt stefnu ríkisstjórnarinnar að halda áfram stuðningi við Úkrænu í stríðinu við Rússa.

Hernaðarleg öryggismál Íslands heyra hinsvegar undir varnarsamstarfið við Bandaríkin sem rekja má aftur til ársins 1941 í síðari heimsstyrjöld. Í varnarsamstarfinu felst jafnframt mikilvægt framlag til hernaðarlegs öryggis á norðurslóðum og friðar á meginlandi Evrópu.

Hernaðarlegt framlag Íslands ræðst af staðsetningu þess og lýtur aðallega að fælingarstefnu NATO gegn Rússlandi. Fælingin snýst um að reyna að sannfæra rússnesk stjórnvöld um það fyrirfram að árás á NATO – sem rétt er að taka fram að er almennt talin ólíkleg – yrði ekki bara svarað á meginlandinu. Það yrði einnig gert með árásum frá flugvélum, kafbátum og herskipum á norðurslóðum á Norðurflotann, stöðvar hans í norðvestur Rússlandi og á skotmörk inni í Rússlandi. Í Norðurflotanum er að finna hryggjarstykkið í langdrægum kjarnorkuvopnum Rússlands sem eru í eldflugakafbátum flotans sem haldið er úti í Barentshafi.

Aðstaða Bandaríkjahers á Íslandi eykur trúverðugleika fælingarstefnunnar. Sýnt er fram á að frá Keflavíkurflugvelli mundi stutt ef þá þyrfti að halda við fyrrnefndar hernaðaraðgerðir gegn Norðurflotanum og Rússlandi með gagnkafbátahernaði, eldsneytisflugvélum, ratsjárþotum og jafnvel langdrægum sprengjuþotum.

Í skilaboðum ríkisstjórnarinnar um öryggi og varnir kemur fleira til en hervarnir og borgaraleg öryggismál þegar hugað er að öryggi þjóðarinnar – og réttilega svo. Þannig er lögð áhersla á að standa vörð um “traust og samheldni í íslensku samfélagi”, sem sé sterkasta vörnin gegn áföllum og árásum í nútímavæddum heimi eins og þar segir.

Loks kemur fram sú afar mikilvæga ábending í skilaboðum ríkisstjórnarinnar um öryggi og varnir að það sé “engin ástæða til ótta – en það er rík ástæða til að vera vel undirbúin.” Það er einmitt grundvallaratriði trúverðugrar fælingar- og öryggisstefnu.

Mynd frá leiðtogafundi NATO í Hag í Hollandi 25.júní 2025.

Veikleikar Írans verða sífellt ljósari, en er komin upp staða til að þoka málum í átt til friðasamlegra lausna í Miðausturlöndum?

Eldflaugaárás Írana í dag á bækistöð Bandaríkjahers í Qatar endurspeglaði mikla veikleika Írans og grundvallarbreytingar á valdajafnvægi í Miðausturlöndum. Íranar sendu fáar flaugar til árásarinnar, álíka margar og Bandaríkjaher notaði í árásina á kjarnorkustöðvar Írana aðfaranótt sunnudags. Íranar létu vita af árásinni svo tryggt væri að varnarkerfi gætu mætt henni og grandað árásarflaugunum. Árásin á bækistöðina í Qatar var með öðrum orðum táknræn.

Þetta minnir á viðbrögð Írana þegar Bandaríkjamenn réðu Soleimani af dögum 2020 til að hefna fyrir árásir á bandarískar herstöðvar í Írak. Solemani var einn af æðstu yfirmönnum byltingarvarðanna í Íran.

Í kjölfar drápsins á Soleimani voru væntingar um harkaleg viðbrögð Írana sem ekkert varð úr.

Nú eru Íranar í enn veikari stððu en 2020. Bandamenn þeirra, hryðjuverkasamtök í Líbanon, Sýrlandi og á Gaza hafa lotið í lægra haldi gagnvart ísraelska hernum og Mossad, ísraelsku leyniþjónustunni. Það kemur í kjölfar aðgerða Ísraelsmanna vegna árásar Hamas samtakanna á Ísrael frá Gaza 7. október 2023.

Íranar eiga fáa vænlega kosti nú til að svara árásum Ísraelshers undanfarna 10 daga eða árás Bandaríjanna um síðusut helgi og hafa engan stuðning – annan en munnlegan – frá öðrum ríkjum á svæðinu, og sama gildir um afstöðu Rússa og Kínverja.

Áhugaverða spurningin er hvort nú sé að verða lag til að hefja viðræður um raunhæfan samning um kjarnorkuáætlun Írana, samning sem allir aðilar telja þjóna öryggi sínu, viðræður jafnframt um frið og stöugleika í Sýrlandi og loks viðræður um tveggja ríkja lausn á deilum Ísraels og Palestínu.

Með öðrum orðum: Kunna þær grundvallarbreytingar sem greinilega hafa orðið á valdastrúktúr og valdajafnvægi í Miðausturlöndum að leiða með tímanum til grundvallarbreytinga á samskiptum ríkjanna á svæðinu?

Njósnaflug undanfarin ár frá Keflavík til Kaliningrad – Hvað er þar?

Bandarískar herflugvélar af gerðinni Boeing Poseidon P-8 hafa stöðugt en tímabundið aðsetur á Keflavíkurflugvelli. Þetta eru eftirlits- og njósnaflugvélar (multi-mission maritime patrol and reconnaissance aircraft). 

Frá Keflavíkurflugvelli eru P-8 vélarnar þó ekki að fylgjast með rússneskum herskipum, kafbátum eða herflugvélum við Ísland eða á Norður Atlantshafi. Væntanlega sakir þess að rússneski herinn hefur ekki sést í námunda við Ísland á síðustu árum og afar lítið á Norður Atlantshafi. Norðurfloti Rússa heldur sig að mestu leyti á nærsvæðum Rússlands á norðurslóðum og í heimahöfum. Langdrægar herflugvélar Rússa halda sig einnig á sömu stöðum. Svona hefur verið í nokkur undanfarin ár eins og ítrekað hefur verið bent á í greinum á þessari vefsíðu um alþjóða- og utanríkismál.

Fylgjast má með flugi Bandaríkjahers frá Keflavíkurflugvelli á sérhæfðum netsíðum um herflug. Höfundur vefsíðunnar hefur í mörg ár farið daglega inn á slíkar síður til að fylgjast með herflugi, sem tengist Íslandi. Það er gerlegt í öllum aðalatriðum fyrir tilstilli einstaklinga sem halda úti netsíðum þar sem þeir hafa gætur á herflugi í heiminum. Það er gert með aðferðum og búnaði sem skilur herflug frá borgaralegu flugi á síðum eins og flightradar24.com.

Auk æfinga- og þjálfunarflugs við Ísland fara P-8 flugvélar hernaðarflug frá Keflavíkurflugvelli. Það er annarsvegar norður í Barentshaf en hinsvegar og aðallega fljúga vélarnar frá Keflavík til Eystrasalts til að njósna um Kaliningrad. Þessar ferðir hófust í apríl 2021. Oft hefur verið flogið daglega og komið hefur fyrir að tvær P-8 flugvélar fari sama sólarhringinn frá Keflavík til Kaliningrad.

Hvað er Kaliningrad? Það er rétt rúmlega 15 þúsund ferkílómetra rússnesk hólmlenda (semi enclave/exclave) við Eystrasalt á milli Póllands og Litháens og er þannig landfræðilega aðskilin frá Rússlandi. 

Auk þess að vera búnar til árása á kafbáta og herskip eru P-8 vélar fjölhæfar langdrægar eftirlits og njósnaflugvélar sem afla upplýsinga frá sjó en hafa einnig búnað sem getur sótt upplýsingar frá hafi inn í nærliggjandi landsvæði, þar á meðal myndrænar upplýsingar og upplýsingar frá fjarskiptum og rafeindabúnaði. (Sjá t.d.: https://www.navair.navy.mil/product/P-8A-Poseidonhttps://www.boeing.com/defense/p-8-poseidon#overviewhttps://www.flightglobal.com/fixed-wing/germany-signs-for-five-boeing-p-8a-poseidon-maritime-patrol-aircraft/144396.article) Auk flugsins frá Keflavík er reglulega farið í njósnaflug við Kaliningrad af hálfu breska, pólska, sænska og þýska hersins

Hvað er í Kaliningrad sem veldur þessum sérstaka og mikla áhuga sem hófst hjá Bandaríkjaher á Keflavíkurflugvelli í apríl 2021 og virðist þannig mega rekja til aðdraganda innrásar Rússa í Úkrænu í febrúar 2022? Um þau atriði verður ekki fullyrt hér auðvitað en meðfylgjandi er krækja á síðu þar sem áhugasamir geta kynnt sér hvað það er af hernaðarlegum toga, sem Rússar hafa og geyma í Kaliningrad. https://www.usni.org/magazines/proceedings/2024/october/strategic-relevance-kaliningrad

Hér eru krækjur sem gefa sýnishorn um nýjasta eftirlits og njósnaflug frá Keflavík til Kaliningrad. Eins og sést á krækjunum er flogið frá Keflavíkurflugvelli til að sveima á stöðum yfir hafi fyrir utan Kaliningrad.